Held ég þekki ekki alltaf muninn á bleiku og svörtu...: poetry eða þannig :-Þ

þriðjudagur, október 23, 2007

poetry eða þannig :-Þ

Yfirþyrmandi og þrúgandi spenna í maganum sem kvelur mig alla daga. Kemur yfir mig eins og holskeifla annað slagið og ég finn eitthvað bresta. Get ekkert tjáð mig um það en ég finn táraflóðið í maganum. Ég hleypi þeim ekki upp. Þau fá ekki að spretta frá hvörmum mínum eins og regnið sem blómin drekka að áfergju. Blómin mín eru ekki vökvuð. Þau eru þurr - dauðvona. Stökk blöðin brotin og stilkarnir svigna undan þurrum blómakrónunum. Rótin er það eina í mér sem lifir. Rót þess að það komi sá dagur sem ég brynni blómunum, dagur þar sem ég fæ að blómstra eins og villirós.

Þrá mín fyrir hið gagnstæða heltekur mig. Ég sé ekki úr augum fyrir arfa og illgresi. Illgresið blómstrar eins og hvert annað blóm en rætur þess og áfergja kæfa mig niður.

Eins og föst í vafningsviði kemst ég ekkert. Ég er bundin á höndum og fótum án þess að geta nokkuð í því gert. Ég get ekkert leitað núna. Ég get ekki losað mig. Þarf bara að takast á við enn einn tilbreytingarlausan daginn með vonina um að rótin muni ekki þorna upp líka.